Friday, July 15, 2011

Bitur fyrirlitning á atferli mannsins

Ég skrifa eftirfarandi orð í þeirri vitneskju að þau eru til einskis. Við byggjum allt okkar líf á flækjum og erum því ófær um að skilja einföldustu hluti. Frá upphafi siðmenningar höfum við hlaðið einu ofan á annað svo við sjáum ekki lengur út fyrir þennan strúktúr sem við lifum eftir. Við höfum myndað í kringum okkur efnahagskerfi sem byggir á stanslausri neyslu og undirstaða alls þess er léleg sjálfsmynd manneskjunnar. Það skiptir ekki máli þó okkur sé sagt enn og aftur að „hamingjan kosti ekki peninga“ og að við eigum að „vera við sjálf“, því allt sem heldur kerfinu okkar gangandi stólar á það að við séum aldrei nógu ánægð með lífið. Við eigum að sannfæra okkar innri rödd um að við séum ófullkomin. Allt sem einkennir okkur er innihaldslaust og asnalegt nema við höfum keypt það úti í búð.
                Karlmenn eru dæmdir af náttúrunnar hendi til að líta niður á typpið á sér. Þeir rembast gjarnan við að bæta það upp með virkri þátttöku í neyslusamfélaginu. Sjálfsmynd kvenna á stóran þátt í að halda efnahagskerfinu okkar gangandi. Þær eiga að vera fallegar, eiga flott föt og rosalega mikið af skóm. Þær þurfa að mála sig til að líta ekki út eins og uppvakningar. Þær þurfa að  vera grannar, sem kostar kort í líkamsrækt, alls konar heilsuvörur og aðhaldsklæðnað svo eitthvað sé nefnt. Reyndar er ekki svo langt síðan að verslunum tókst að auka söluna með því að telja karlmönnum trú um að þeir ættu líka að vera fallegir. Neyslukerfið sem byggir á endalausu áreiti auglýsinga hefur búið til ímynd af hinni fullkomnu manneskju sem er, ekki af ástæðulausu, ómögulegt að nálgast. Það glíma allir við sjálfstraust sitt á einhverjum tímapunkti og það er ekki auðvelt að finna það þegar okkur er gert að teygja okkur í átt að einhverri fantasíu. Þegar við lendum svo á botninum er eins gott að eiga pening fyrir lítaaðgerðum. En, ó; hvernig stendur á því að eftir allar aðgerðirnar er það sama ljóta fíflið sem starir til baka þegar þú lítur í spegilinn? Hér er sannleiksmoli sem þið munið aldrei trúa: það er öllum drullu sama hvernig við lítum út svo lengi sem við erum sjálfsörugg og búum yfir votti af sjálfsvirðingu. Það er bara til ein tegund af ljótu fólki.
                Fegurðin tilheyrir þeim sem hana sér. Hún er ekki hlutbundin. Fegurð er tilfinning og speglar okkar innri persónu í því sem við lærum að meta sem eitthvað fallegt. Sjálfstraustið og sjálfsvirðingin tekur líka á sig skell í mannlegum samskiptum þar sem fólk vill þóknast hvoru öðru. Fólk lætur vaða yfir sig í þeirri trú um að ást og umhyggja komi af undirgefni. Þegar öllu er á botnin hvolft hefur manneskjan tapað þeim litla votti af sjálfsvirðingu sem hún hafði; allt í nafni þess að vera elskuð af fólki sem mun aldrei bera virðingu fyrir henni þar sem hún hefur enga persónulega staðla eða sjálfstæðan vilja. Fólk gefur sál sína til þeirra sem fyrirlíta það fyrir gjöfina.
                Sjálfstraust snýst um hugarástand. Sjálfsvirðing snýst um hugarástand. Sjálfsmynd snýst um hugarástand. Ekkert annað. En það vita það allir... Við getum fengið þessa sömu uppljómun þúsund sinnum en hún verður alltaf til einskis. Okkur hefur líka verið kennt að hlýða ekki á okkur sjálf, heldur fólkið í kring um okkur og kallinn í sjónvarpinu sem segir okkur að hamingjan fáist úti í næstu verslun. Það er svo sem ekki hægt að fordæma þau sérstaklega fyrir þetta; þau eru bara jafn miklir fávitar og við hin.

Ég neita öllum ásökunum um ýkjur og alhæfingar.

Takk fyrir mig.

1 comment:

  1. Gæti ekki verið meira sammála! svo mikið satt.
    Frábærlega skrifað :-)

    ReplyDelete