Monday, July 4, 2011

Með fordóma fyrir fjölbreytni

Fyrir nokkrum árum sat ég fastur í framhaldsskóla. Mér skilst að það kerfi sé byggt á hugmyndum kristintrúar um „purgatory“ eða hreinsunareldinn. Ég var nítján ára, foreldri til tæplega tveggja ára, metnaðarfullur og með stóra drauma. En það tekur sinn tíma að ganga í gegn um hreinsunareldinn. Á meðan á göngunni stóð vantaði mig það eitt sem ég vildi helst af öllu geta lifað án; peninga.
                Í skólablaðinu sá ég að Bónusvideo auglýsti eftir starfskrafti. Áður hafði ég unnið á bensínstöð og þótti það leiðinlegt. Kvikmyndir sneru betur að áhugamálum mínum  en SS pylsur og bensíni og því virtist þetta ágætis kostur. Sú hugsun var ákaflega heimskuleg. Ég var ráðinn, enda með góð meðmæli og vel fyrir ofan meðalaldur starfsmanna í afgreiðslu leigunnar. Það var aðeins ein manneskja á vakt hverju sinni sem mér þótti einkennilegt. Eftir fyrstu vakt fékk ég hrós fyrir að vera duglegur og fylla vel á nammibarinn. Mér leið eins og leikskólabarni sem var að sýna kennaranum „fínu myndina sem ég var að teikna“. Eftir nokkrar vaktir var mér sérstaklega hyllt fyrir að telja rétt peningana fyrir uppgjörið. Þá leist mér ekki lengur á blikuna. Kom eitthvað annað til greina? Hafði ég verið að vanmeta einhvern sérstakan hæfileika? Enn og aftur leið mér eins og leikskólabarni; kunni að telja alveg upp að helling!

                Það kom að því að ég þurfti að mæta upp á skrifstofu fyrirtækisins til að skrifa undir samninga og vera formlega ráðinn í starfið. Á móti mér tók vingjarnleg kona. Ég gat ekki betur séð en að hún væri rétt um þrítugt. Hún leiddi mig í gegn um staðlaða pappíra og vinnureglur. Hún sagði mér frá þeim kostum sem þau óskuðu frá starfsfólki sínu. Flest sneri það að sjálfsagðri kurteisi og framkomu sem flestir temja sér í daglegum samskiptum. Því næst leiddi hún mig fram af kletta brún; þar sem ég missti ekki bara álit mitt á þessu blessaða fyrirtæki, heldur einnig á henni sem persónu.
                Í fyrstu var mér var gert ljóst hvers kyns klæðaburður væri mönnum sæmandi. Mér var gert að skilja að húðflúr væru ekki ásættanleg og skyldu aldrei sjáanleg. Það er ljóst að einungis glæpamenn og eiturlyfjafíklar fá sér svoleiðis, svo því ekki að viðhalda þeirri staðalímynd? Einnig kom fram að götun á andliti væri afskræmi handan þessarar veraldar og að slíka lokka ætti að fjarlægja. Það á að sjálfsögðu ekki við um eyrnalokka. Þeir hafa þótt sjálfsögð viðbót við mannslíkamann frá því við munum eftir okkur og gefa ekki til kynna að þú sért nokkuð annað en venjulegur; ofbjóða ekki fólkinu sem er með fordóma fyrir þér.
                Verst þótti mér hvað hún var einlæg þar sem hún þuldi þetta upp. Þar sem ég var hvorki flúraður né gataður sneri þetta ekki beint að minni persónu; en þetta setti skýrar línur og skar beint á frelsi mitt til að vera ég sjálfur.
                Ég mátti samt vera með tyggjó í afgreiðslunni.

                Nítján ára var ég ekki meiri maður en svo að ég þagði; ég kinkaði kolli eftir fundinn og rölti einfaldlega út með reiðina í brjósti mér. Ég var framhaldsskólanemi og foreldri sem bráðvantaði vinnu. Ég sagði þó upp starfinu nokkru síðar og glotti innra með mér þegar fyrirtækið fór að lokum á hausinn.
                Ég veit til þess að fleiri vinnustaðir hafa sett stefnu sem þessa og mér stendur hreint ekki á sama. Við búum í litríkum heimi en rembumst þó við að mála hann gráann. Við greiðum enn veginn fyrir fordómum, jafnvel án þess að gera okkur grein fyrir því. Það virðist vera ásættanlegt og eðlilegt að fordæma fólk af útliti sínu ef það ber það af eigin frumkvæði. Við erum með fordóma fyrir fjölbreytni. Ég vona að framtíðin færi okkur raunverulega afstöðu gegn fordómum. Ábyrgðarfulla atvinnurekendur, sem taka fólki eins og það er og bjóða hvorki starfsfólki sínu né viðskiptavinum upp á annað.


1 comment:

  1. Góður Smári, líst vel á að þú sért farinn að blogga!

    ReplyDelete