Monday, December 5, 2011

Af engu


Sökum skorts á viðfangsefni hef ég ákveðið að skirfa um ekki neitt. Mér reynist erfitt að velja ákveðið efni til umfjöllunar, að flokka úr allri óreiðunni sem umvefur hug minn, og því er auðveldast að skrifa bara um ekkert. Þá vaknar strax sú stóra spurning hvort það sé yfir höfuð mögulegt að skrifa um ekki neitt. Þegar ekki neitt verður að viðfangsefni er þegar í stað farið að fjalla um ákveðið málefni og þá ótvírætt að ekki neitt sé orðið eitthvað. Hugmyndin tortýmir þar með sjálfri sér og ekkert verður úr, eða hvað? Enn er von, því að hugsanlegt er að fjalla um ekki neitt sem viðfangsefni í sjálfu sér, fremur en um ekki neitt yfir höfuð.
          Ætla má að umrætt hugtak sé hálf ómögulegt, því það er ekkert í mannlegum skilningi sem tengir okkur við ekki neitt. Það er alltaf eitthvað, hversu ómerkilegt, leiðinlegt eða gleymanlegt sem það reynist vera. Þó allt annað lægi í eyði værum við sem mannfólk t.d. enn háð hugsun og hjartslætti. Að gera ekkert er þá í þessum skilningi samheiti þess að vera ekki. Það hugtak er manninum einnig illskiljanlegt. Förum ekki nánar út í það.
          Í daglegu tali og almennri notkun hugtaksins getum við þá gefið okkur það að ekki neitt sé samheiti yfir það sem er ómerkilegt eða ekki frásögu færandi. Ekki ósvipað þessari litlu grein.

Friday, July 15, 2011

Bitur fyrirlitning á atferli mannsins

Ég skrifa eftirfarandi orð í þeirri vitneskju að þau eru til einskis. Við byggjum allt okkar líf á flækjum og erum því ófær um að skilja einföldustu hluti. Frá upphafi siðmenningar höfum við hlaðið einu ofan á annað svo við sjáum ekki lengur út fyrir þennan strúktúr sem við lifum eftir. Við höfum myndað í kringum okkur efnahagskerfi sem byggir á stanslausri neyslu og undirstaða alls þess er léleg sjálfsmynd manneskjunnar. Það skiptir ekki máli þó okkur sé sagt enn og aftur að „hamingjan kosti ekki peninga“ og að við eigum að „vera við sjálf“, því allt sem heldur kerfinu okkar gangandi stólar á það að við séum aldrei nógu ánægð með lífið. Við eigum að sannfæra okkar innri rödd um að við séum ófullkomin. Allt sem einkennir okkur er innihaldslaust og asnalegt nema við höfum keypt það úti í búð.
                Karlmenn eru dæmdir af náttúrunnar hendi til að líta niður á typpið á sér. Þeir rembast gjarnan við að bæta það upp með virkri þátttöku í neyslusamfélaginu. Sjálfsmynd kvenna á stóran þátt í að halda efnahagskerfinu okkar gangandi. Þær eiga að vera fallegar, eiga flott föt og rosalega mikið af skóm. Þær þurfa að mála sig til að líta ekki út eins og uppvakningar. Þær þurfa að  vera grannar, sem kostar kort í líkamsrækt, alls konar heilsuvörur og aðhaldsklæðnað svo eitthvað sé nefnt. Reyndar er ekki svo langt síðan að verslunum tókst að auka söluna með því að telja karlmönnum trú um að þeir ættu líka að vera fallegir. Neyslukerfið sem byggir á endalausu áreiti auglýsinga hefur búið til ímynd af hinni fullkomnu manneskju sem er, ekki af ástæðulausu, ómögulegt að nálgast. Það glíma allir við sjálfstraust sitt á einhverjum tímapunkti og það er ekki auðvelt að finna það þegar okkur er gert að teygja okkur í átt að einhverri fantasíu. Þegar við lendum svo á botninum er eins gott að eiga pening fyrir lítaaðgerðum. En, ó; hvernig stendur á því að eftir allar aðgerðirnar er það sama ljóta fíflið sem starir til baka þegar þú lítur í spegilinn? Hér er sannleiksmoli sem þið munið aldrei trúa: það er öllum drullu sama hvernig við lítum út svo lengi sem við erum sjálfsörugg og búum yfir votti af sjálfsvirðingu. Það er bara til ein tegund af ljótu fólki.
                Fegurðin tilheyrir þeim sem hana sér. Hún er ekki hlutbundin. Fegurð er tilfinning og speglar okkar innri persónu í því sem við lærum að meta sem eitthvað fallegt. Sjálfstraustið og sjálfsvirðingin tekur líka á sig skell í mannlegum samskiptum þar sem fólk vill þóknast hvoru öðru. Fólk lætur vaða yfir sig í þeirri trú um að ást og umhyggja komi af undirgefni. Þegar öllu er á botnin hvolft hefur manneskjan tapað þeim litla votti af sjálfsvirðingu sem hún hafði; allt í nafni þess að vera elskuð af fólki sem mun aldrei bera virðingu fyrir henni þar sem hún hefur enga persónulega staðla eða sjálfstæðan vilja. Fólk gefur sál sína til þeirra sem fyrirlíta það fyrir gjöfina.
                Sjálfstraust snýst um hugarástand. Sjálfsvirðing snýst um hugarástand. Sjálfsmynd snýst um hugarástand. Ekkert annað. En það vita það allir... Við getum fengið þessa sömu uppljómun þúsund sinnum en hún verður alltaf til einskis. Okkur hefur líka verið kennt að hlýða ekki á okkur sjálf, heldur fólkið í kring um okkur og kallinn í sjónvarpinu sem segir okkur að hamingjan fáist úti í næstu verslun. Það er svo sem ekki hægt að fordæma þau sérstaklega fyrir þetta; þau eru bara jafn miklir fávitar og við hin.

Ég neita öllum ásökunum um ýkjur og alhæfingar.

Takk fyrir mig.

Saturday, July 9, 2011

Mistök

Einn af kostum mannsinns er að geta lært af mistökum annara. En fólk er ólíkt og upplifir hlutina á ólíka vegu. Við getum ekki lært allt af reynslu annara. Auðvitað er líka til það sem kallast „common sense.“ Án þess myndu kannski fleiri hoppa fram af byggingum og prufa að kyssa gangstéttina. Það er erfitt að sjá að sér eftir þau mistök. En setjum alvarlegt heilsutjón og annan varanlegan skaða aðeins til hliðar; mistök eru frábær að mínu mati. Það er fátt sem byggir manneskjuna upp jafn mikið og mistökin sem hún gerir. Fyrir mér snýst lífið fyrst og fremst um upplifanir. Suma dreymir um að lifa í alsælu og endalausum vellystingum. Mikið þætti mér lífið leiðinlegt ef það hefði ekki líka sínar slæmu hliðar. Hvernig skilgreinir maður hið góða ef það er ekkert til samanburðar? Margar af mínum bestu stundum hafa komið til þegar ég hef gert eitthvað virkilega heimskulegt. Óvissa getur verið indæl. 
                Ofbeldi er hluti af dýrslegu eðli mannsinns. Sjálfur hef ég aldrei verið ofbeldishneigður. Ég trúi því ekki að ofbeldi leysi vandamál og tel að það hafi sannað sig marg oft í gegnum mannkynssöguna. Þó er ofbeldishneigðin eitthvað sem býr í okkur öllum. Þegar ég var ellefu ára bjó ég um stutta stund í Þýskalandi. Ég var í þýskum skóla og búinn að eignast nokkra þýska vini. Það var hins vegar einn strákur í bekknum sem þoldi mig ekki. Ég man ekki hvernig það kom til, eða hvað gekk almennt á okkar á milli, en í minningunni vorum við erkióvinir sem gáfum hvorum öðrum illt auga úr sitthvoru horninu; Superman og Lex Luthor í grimmri störukeppni. 
                Einn daginn bar svo til að þessi óvinur minn hrækti á mig. Móðgaður og bálreiður hljóp ég í átt að honum. Ég ætlaði að sjálfsögðu að berja hann; helvítis fíflið. Þá vildi ekki betur til en svo að þessir svokölluðu vinir mínir gripu í mig og héldu mér aftur. Óvinurinn gekk burt og ég stóð eftir niðurlægður. Eflaust áttu þeir að hafa gert mér einhvern greiða með því að forða mér frá slagsmálum. En hvað á ellefu ára strákur með litla sem enga þýsku kunnáttu að gera þegar Hitler hrækir framan í hann? Ég er þeirrar trúar að menn þurfi oftar en ekki að gera sín eigin mistök. Þeir höfðu svipt mig frelsinu til að gera það sem ég þurfti að gera. Auðvitað hefðu slagsmálin ekki leyst vandann. Kannski hefði mér ekki einu sinni liðið neitt betur. En ég fékk aldrei að vita það.
                Ég er þeirrar trúar að ofbeldi sé ekki til neins. Hins vegar mun ég alltaf sjá eftir því að eiga ekki þá reynslu að hafa lent í slagsmálum.

Wednesday, July 6, 2011

Hundrað prósent: Hádramatískt nöldur eða almennar hugleiðingar

Ég myndi segja að ég hafi miklar væntingar til framtíðarinnar og „hundrað prósent“ metnað til að láta drauma mína rætast. Er annars hægt að mæla metnað í prósentum? Eða ánægjuna sem ég fæ af því sem ég geri vel? Er þessi tölfræði raunverulegt fyrirbæri eða bara einhver brandari? Hvað um það, ég tel að þessi metnaður hafi keyrt mig áfram í gegn um árin og geri það enn. Ég veit að það er eitthvað frábært handan við hornið og ég veit að ég þarf að reiða á sjálfan mig til að komast þangað. Ég hef líka lært að njóta ferðarinnar, því ég veit svo sem ekkert hvar eða hvenær hún endar.
                Það er leikur að læra. Það var allavega einu sinni leikur að læra. Nú er nauðsynlegt að læra. Annars ertu heimskur og enginn tekur mark á þér. Er það ekki annars viðhorfið? Hvað um það, ég er í háskóla; þarf ekki að hafa neinar áhyggjur. Ég er meira að segja í listaháskóla. Þar hélt ég að það væri aðeins meiri leikur að læra. Sei-sei nei. Þar er fullorðið fólk. Fullorðið fólk eins og ég verður að taka lífinu alvarlega og sinna skyldum og fylgja reglum. Þar er hundrað prósent mætingarskylda. Hver er ég svo sem að setja út á það? Sé til staðar kennari til að kenna mér eitthvað gæti ég að minnsta kosti sýnt honum þá lágmarks virðingu að mæta á svæðið, vissulega. Hins vegar finnst mér skrítið að setja skapandi nám inn á einhverja skrifstofutöflu. Frá klukkan 9 – 12 áttu að vera hugmyndaríkur og skapandi í skólanum, síðan skaltu fá þér hádegismat, fara kannski á fyrirlestur, og vera svo hugmyndaríkur og skapandi heima hjá þér. Jafvel vaka aðeins fram á nótt því þér tókst ekki að vera nógu hugfrjór og klár þarna um morguninn. Ætli listamenn séu með stimpilklukku í vinnustofunni sinni?
                Það þarf að sjálfsögðu að gefa sér tíma og einbeitingu í vinnu sína til að hún verði „hundrað prósent“ frábær. En þú getur svo sannarlega ekki þvingað fram hugmyndir. Sköpunarferlið tekur tíma og er óútreiknanlegt. Ég tel mig geta fullyrt að það leysi ekki endilega vandamálin að láta þau vefjast fyrir sér öllum stundum. Ég get svarið það að stundum er betra að henda öllu frá sér og fara á fyllerí... úps, má kannski ekki gera svoleiðis? Þú getur líka sest niður til hugleiðslu eða horft á lélega bíómynd, hvað sem þú villt. Stundum er best að hætta að hugsa um vandamálin til að finna lausnina. Þegar þú hefur hreinsað hugann er svarið yfirleitt beint fyrir framan þig.
                Ég vil kannski ekki setja út á mætingarskylduna sem slíka, en þegar reglugerðir fara að skipta mestu máli fer ég að hafa áhyggjur. „Afþvíbara-reglur“ eru ekki fyrir mig. Ég ber ekki virðingu fyrir þeim. Ég tel mig hafa metnað og vilja, eitthvað sem tekist hefur að draga úr mörgum þegnum samfélagsins með aðferðum sem þessum. Mín verðlaun fyrir vel unnin verk eru tilfinningin sem ég fæ eftir að hafa lokið þeim af heilum hug. Ef ég forðast vandamálin eða sinni ekki því sem ég þarf að gera líður mér illa. Refsingarnar koma frá mér sjálfum og því sem ég þarf að leggja aukalega á mig fyrir vikið. Meira þarf ekki. Þegar ógn af refsingu breytist í drifkraft minn til að ljúka mínum verkum er ekki hægt að bera miklar væntingar til þeirra.
                Of mikil formfesta er óvinur listamannsinns. Níutíu prósent listrænnar vinnu er huglæg... ha? Gölluð tölfræði, segirðu? Já, örugglega. Við skapandi störf er svefninn, eða svefnleysið, og afþreyingin sem maður stundar ekki síður mikilvæg en skyssubókin. Stundum vantar eitthvað  til að koma manni í gang; það er yfirleitt ekki svipuhögg. En einhverra hluta vegna, þó allt sé undir lagt til að koma vel unnum verkum til skila á réttum tíma, gæti þó hin heilaga tölfræði orðið manni að falli; mætingar prósentan er of lág. Ég spyr mig hvers vegna það sé þessi tölfræði sem hefur lokaútslagið hér. Hvað er ég einu sinni að gera hérna? Það er þá ekki vinnan sjálf sem skiptir máli, ekki verkið sem ég skila af mér, heldur tölfræðin á bakvið mætinguna mína; sem eru álíka innihaldsríkar upplýsingar og tölfræðin á bakvið hversu marga kaffibolla ég drakk þessa vikuna miðað við þá síðustu. Er virkilega hægt að mæla metnað minn og vinnu með tölfræði? Er verkið sem ég skila af mér endurspeglun á því hversu oft kennarinn seti „x“ við nafnið mitt?
                Það er auðvelt að taka alla gleðina út hlutunum. Hvert stefni ég ef það er engin raunveruleg ánægja sem fylgir vel unnu verki, heldur bara léttir við að sleppa við refsingu? Þetta hljómar kannski eins og hádramatískt væl einhvers hálfvita sem hefur það allt of gott. En þetta er ekki sjálfsvorkun. Þetta snýst í raun ekki einu sinni um það hvað mér finnst um skólann minn. Þetta er gagnrýni á hið undarlega óbeina refsikerfi sem við höfum byggt í kringum allar okkar athafnir. Kerfi sem við erum svo háð að við ölum jafn vel börnin okkar upp í því; enginn raunverulegur drifkraftur, bara ótti við afleiðingar.


Monday, July 4, 2011

Með fordóma fyrir fjölbreytni

Fyrir nokkrum árum sat ég fastur í framhaldsskóla. Mér skilst að það kerfi sé byggt á hugmyndum kristintrúar um „purgatory“ eða hreinsunareldinn. Ég var nítján ára, foreldri til tæplega tveggja ára, metnaðarfullur og með stóra drauma. En það tekur sinn tíma að ganga í gegn um hreinsunareldinn. Á meðan á göngunni stóð vantaði mig það eitt sem ég vildi helst af öllu geta lifað án; peninga.
                Í skólablaðinu sá ég að Bónusvideo auglýsti eftir starfskrafti. Áður hafði ég unnið á bensínstöð og þótti það leiðinlegt. Kvikmyndir sneru betur að áhugamálum mínum  en SS pylsur og bensíni og því virtist þetta ágætis kostur. Sú hugsun var ákaflega heimskuleg. Ég var ráðinn, enda með góð meðmæli og vel fyrir ofan meðalaldur starfsmanna í afgreiðslu leigunnar. Það var aðeins ein manneskja á vakt hverju sinni sem mér þótti einkennilegt. Eftir fyrstu vakt fékk ég hrós fyrir að vera duglegur og fylla vel á nammibarinn. Mér leið eins og leikskólabarni sem var að sýna kennaranum „fínu myndina sem ég var að teikna“. Eftir nokkrar vaktir var mér sérstaklega hyllt fyrir að telja rétt peningana fyrir uppgjörið. Þá leist mér ekki lengur á blikuna. Kom eitthvað annað til greina? Hafði ég verið að vanmeta einhvern sérstakan hæfileika? Enn og aftur leið mér eins og leikskólabarni; kunni að telja alveg upp að helling!

                Það kom að því að ég þurfti að mæta upp á skrifstofu fyrirtækisins til að skrifa undir samninga og vera formlega ráðinn í starfið. Á móti mér tók vingjarnleg kona. Ég gat ekki betur séð en að hún væri rétt um þrítugt. Hún leiddi mig í gegn um staðlaða pappíra og vinnureglur. Hún sagði mér frá þeim kostum sem þau óskuðu frá starfsfólki sínu. Flest sneri það að sjálfsagðri kurteisi og framkomu sem flestir temja sér í daglegum samskiptum. Því næst leiddi hún mig fram af kletta brún; þar sem ég missti ekki bara álit mitt á þessu blessaða fyrirtæki, heldur einnig á henni sem persónu.
                Í fyrstu var mér var gert ljóst hvers kyns klæðaburður væri mönnum sæmandi. Mér var gert að skilja að húðflúr væru ekki ásættanleg og skyldu aldrei sjáanleg. Það er ljóst að einungis glæpamenn og eiturlyfjafíklar fá sér svoleiðis, svo því ekki að viðhalda þeirri staðalímynd? Einnig kom fram að götun á andliti væri afskræmi handan þessarar veraldar og að slíka lokka ætti að fjarlægja. Það á að sjálfsögðu ekki við um eyrnalokka. Þeir hafa þótt sjálfsögð viðbót við mannslíkamann frá því við munum eftir okkur og gefa ekki til kynna að þú sért nokkuð annað en venjulegur; ofbjóða ekki fólkinu sem er með fordóma fyrir þér.
                Verst þótti mér hvað hún var einlæg þar sem hún þuldi þetta upp. Þar sem ég var hvorki flúraður né gataður sneri þetta ekki beint að minni persónu; en þetta setti skýrar línur og skar beint á frelsi mitt til að vera ég sjálfur.
                Ég mátti samt vera með tyggjó í afgreiðslunni.

                Nítján ára var ég ekki meiri maður en svo að ég þagði; ég kinkaði kolli eftir fundinn og rölti einfaldlega út með reiðina í brjósti mér. Ég var framhaldsskólanemi og foreldri sem bráðvantaði vinnu. Ég sagði þó upp starfinu nokkru síðar og glotti innra með mér þegar fyrirtækið fór að lokum á hausinn.
                Ég veit til þess að fleiri vinnustaðir hafa sett stefnu sem þessa og mér stendur hreint ekki á sama. Við búum í litríkum heimi en rembumst þó við að mála hann gráann. Við greiðum enn veginn fyrir fordómum, jafnvel án þess að gera okkur grein fyrir því. Það virðist vera ásættanlegt og eðlilegt að fordæma fólk af útliti sínu ef það ber það af eigin frumkvæði. Við erum með fordóma fyrir fjölbreytni. Ég vona að framtíðin færi okkur raunverulega afstöðu gegn fordómum. Ábyrgðarfulla atvinnurekendur, sem taka fólki eins og það er og bjóða hvorki starfsfólki sínu né viðskiptavinum upp á annað.