Wednesday, July 6, 2011

Hundrað prósent: Hádramatískt nöldur eða almennar hugleiðingar

Ég myndi segja að ég hafi miklar væntingar til framtíðarinnar og „hundrað prósent“ metnað til að láta drauma mína rætast. Er annars hægt að mæla metnað í prósentum? Eða ánægjuna sem ég fæ af því sem ég geri vel? Er þessi tölfræði raunverulegt fyrirbæri eða bara einhver brandari? Hvað um það, ég tel að þessi metnaður hafi keyrt mig áfram í gegn um árin og geri það enn. Ég veit að það er eitthvað frábært handan við hornið og ég veit að ég þarf að reiða á sjálfan mig til að komast þangað. Ég hef líka lært að njóta ferðarinnar, því ég veit svo sem ekkert hvar eða hvenær hún endar.
                Það er leikur að læra. Það var allavega einu sinni leikur að læra. Nú er nauðsynlegt að læra. Annars ertu heimskur og enginn tekur mark á þér. Er það ekki annars viðhorfið? Hvað um það, ég er í háskóla; þarf ekki að hafa neinar áhyggjur. Ég er meira að segja í listaháskóla. Þar hélt ég að það væri aðeins meiri leikur að læra. Sei-sei nei. Þar er fullorðið fólk. Fullorðið fólk eins og ég verður að taka lífinu alvarlega og sinna skyldum og fylgja reglum. Þar er hundrað prósent mætingarskylda. Hver er ég svo sem að setja út á það? Sé til staðar kennari til að kenna mér eitthvað gæti ég að minnsta kosti sýnt honum þá lágmarks virðingu að mæta á svæðið, vissulega. Hins vegar finnst mér skrítið að setja skapandi nám inn á einhverja skrifstofutöflu. Frá klukkan 9 – 12 áttu að vera hugmyndaríkur og skapandi í skólanum, síðan skaltu fá þér hádegismat, fara kannski á fyrirlestur, og vera svo hugmyndaríkur og skapandi heima hjá þér. Jafvel vaka aðeins fram á nótt því þér tókst ekki að vera nógu hugfrjór og klár þarna um morguninn. Ætli listamenn séu með stimpilklukku í vinnustofunni sinni?
                Það þarf að sjálfsögðu að gefa sér tíma og einbeitingu í vinnu sína til að hún verði „hundrað prósent“ frábær. En þú getur svo sannarlega ekki þvingað fram hugmyndir. Sköpunarferlið tekur tíma og er óútreiknanlegt. Ég tel mig geta fullyrt að það leysi ekki endilega vandamálin að láta þau vefjast fyrir sér öllum stundum. Ég get svarið það að stundum er betra að henda öllu frá sér og fara á fyllerí... úps, má kannski ekki gera svoleiðis? Þú getur líka sest niður til hugleiðslu eða horft á lélega bíómynd, hvað sem þú villt. Stundum er best að hætta að hugsa um vandamálin til að finna lausnina. Þegar þú hefur hreinsað hugann er svarið yfirleitt beint fyrir framan þig.
                Ég vil kannski ekki setja út á mætingarskylduna sem slíka, en þegar reglugerðir fara að skipta mestu máli fer ég að hafa áhyggjur. „Afþvíbara-reglur“ eru ekki fyrir mig. Ég ber ekki virðingu fyrir þeim. Ég tel mig hafa metnað og vilja, eitthvað sem tekist hefur að draga úr mörgum þegnum samfélagsins með aðferðum sem þessum. Mín verðlaun fyrir vel unnin verk eru tilfinningin sem ég fæ eftir að hafa lokið þeim af heilum hug. Ef ég forðast vandamálin eða sinni ekki því sem ég þarf að gera líður mér illa. Refsingarnar koma frá mér sjálfum og því sem ég þarf að leggja aukalega á mig fyrir vikið. Meira þarf ekki. Þegar ógn af refsingu breytist í drifkraft minn til að ljúka mínum verkum er ekki hægt að bera miklar væntingar til þeirra.
                Of mikil formfesta er óvinur listamannsinns. Níutíu prósent listrænnar vinnu er huglæg... ha? Gölluð tölfræði, segirðu? Já, örugglega. Við skapandi störf er svefninn, eða svefnleysið, og afþreyingin sem maður stundar ekki síður mikilvæg en skyssubókin. Stundum vantar eitthvað  til að koma manni í gang; það er yfirleitt ekki svipuhögg. En einhverra hluta vegna, þó allt sé undir lagt til að koma vel unnum verkum til skila á réttum tíma, gæti þó hin heilaga tölfræði orðið manni að falli; mætingar prósentan er of lág. Ég spyr mig hvers vegna það sé þessi tölfræði sem hefur lokaútslagið hér. Hvað er ég einu sinni að gera hérna? Það er þá ekki vinnan sjálf sem skiptir máli, ekki verkið sem ég skila af mér, heldur tölfræðin á bakvið mætinguna mína; sem eru álíka innihaldsríkar upplýsingar og tölfræðin á bakvið hversu marga kaffibolla ég drakk þessa vikuna miðað við þá síðustu. Er virkilega hægt að mæla metnað minn og vinnu með tölfræði? Er verkið sem ég skila af mér endurspeglun á því hversu oft kennarinn seti „x“ við nafnið mitt?
                Það er auðvelt að taka alla gleðina út hlutunum. Hvert stefni ég ef það er engin raunveruleg ánægja sem fylgir vel unnu verki, heldur bara léttir við að sleppa við refsingu? Þetta hljómar kannski eins og hádramatískt væl einhvers hálfvita sem hefur það allt of gott. En þetta er ekki sjálfsvorkun. Þetta snýst í raun ekki einu sinni um það hvað mér finnst um skólann minn. Þetta er gagnrýni á hið undarlega óbeina refsikerfi sem við höfum byggt í kringum allar okkar athafnir. Kerfi sem við erum svo háð að við ölum jafn vel börnin okkar upp í því; enginn raunverulegur drifkraftur, bara ótti við afleiðingar.


No comments:

Post a Comment