Saturday, July 9, 2011

Mistök

Einn af kostum mannsinns er að geta lært af mistökum annara. En fólk er ólíkt og upplifir hlutina á ólíka vegu. Við getum ekki lært allt af reynslu annara. Auðvitað er líka til það sem kallast „common sense.“ Án þess myndu kannski fleiri hoppa fram af byggingum og prufa að kyssa gangstéttina. Það er erfitt að sjá að sér eftir þau mistök. En setjum alvarlegt heilsutjón og annan varanlegan skaða aðeins til hliðar; mistök eru frábær að mínu mati. Það er fátt sem byggir manneskjuna upp jafn mikið og mistökin sem hún gerir. Fyrir mér snýst lífið fyrst og fremst um upplifanir. Suma dreymir um að lifa í alsælu og endalausum vellystingum. Mikið þætti mér lífið leiðinlegt ef það hefði ekki líka sínar slæmu hliðar. Hvernig skilgreinir maður hið góða ef það er ekkert til samanburðar? Margar af mínum bestu stundum hafa komið til þegar ég hef gert eitthvað virkilega heimskulegt. Óvissa getur verið indæl. 
                Ofbeldi er hluti af dýrslegu eðli mannsinns. Sjálfur hef ég aldrei verið ofbeldishneigður. Ég trúi því ekki að ofbeldi leysi vandamál og tel að það hafi sannað sig marg oft í gegnum mannkynssöguna. Þó er ofbeldishneigðin eitthvað sem býr í okkur öllum. Þegar ég var ellefu ára bjó ég um stutta stund í Þýskalandi. Ég var í þýskum skóla og búinn að eignast nokkra þýska vini. Það var hins vegar einn strákur í bekknum sem þoldi mig ekki. Ég man ekki hvernig það kom til, eða hvað gekk almennt á okkar á milli, en í minningunni vorum við erkióvinir sem gáfum hvorum öðrum illt auga úr sitthvoru horninu; Superman og Lex Luthor í grimmri störukeppni. 
                Einn daginn bar svo til að þessi óvinur minn hrækti á mig. Móðgaður og bálreiður hljóp ég í átt að honum. Ég ætlaði að sjálfsögðu að berja hann; helvítis fíflið. Þá vildi ekki betur til en svo að þessir svokölluðu vinir mínir gripu í mig og héldu mér aftur. Óvinurinn gekk burt og ég stóð eftir niðurlægður. Eflaust áttu þeir að hafa gert mér einhvern greiða með því að forða mér frá slagsmálum. En hvað á ellefu ára strákur með litla sem enga þýsku kunnáttu að gera þegar Hitler hrækir framan í hann? Ég er þeirrar trúar að menn þurfi oftar en ekki að gera sín eigin mistök. Þeir höfðu svipt mig frelsinu til að gera það sem ég þurfti að gera. Auðvitað hefðu slagsmálin ekki leyst vandann. Kannski hefði mér ekki einu sinni liðið neitt betur. En ég fékk aldrei að vita það.
                Ég er þeirrar trúar að ofbeldi sé ekki til neins. Hins vegar mun ég alltaf sjá eftir því að eiga ekki þá reynslu að hafa lent í slagsmálum.

1 comment:

  1. Æ, Smári, þá þú hefðir kannski fengið brotið nef eða eitthvað þaðan af verra. Kannski var niðurlægingin reynslan sem þú þurftir í þetta skiptið ... bara pæling ;-)

    ReplyDelete