Monday, December 5, 2011

Af engu


Sökum skorts á viðfangsefni hef ég ákveðið að skirfa um ekki neitt. Mér reynist erfitt að velja ákveðið efni til umfjöllunar, að flokka úr allri óreiðunni sem umvefur hug minn, og því er auðveldast að skrifa bara um ekkert. Þá vaknar strax sú stóra spurning hvort það sé yfir höfuð mögulegt að skrifa um ekki neitt. Þegar ekki neitt verður að viðfangsefni er þegar í stað farið að fjalla um ákveðið málefni og þá ótvírætt að ekki neitt sé orðið eitthvað. Hugmyndin tortýmir þar með sjálfri sér og ekkert verður úr, eða hvað? Enn er von, því að hugsanlegt er að fjalla um ekki neitt sem viðfangsefni í sjálfu sér, fremur en um ekki neitt yfir höfuð.
          Ætla má að umrætt hugtak sé hálf ómögulegt, því það er ekkert í mannlegum skilningi sem tengir okkur við ekki neitt. Það er alltaf eitthvað, hversu ómerkilegt, leiðinlegt eða gleymanlegt sem það reynist vera. Þó allt annað lægi í eyði værum við sem mannfólk t.d. enn háð hugsun og hjartslætti. Að gera ekkert er þá í þessum skilningi samheiti þess að vera ekki. Það hugtak er manninum einnig illskiljanlegt. Förum ekki nánar út í það.
          Í daglegu tali og almennri notkun hugtaksins getum við þá gefið okkur það að ekki neitt sé samheiti yfir það sem er ómerkilegt eða ekki frásögu færandi. Ekki ósvipað þessari litlu grein.

No comments:

Post a Comment